top of page

Védís Hervör fagnar 20 ára tónlistarferli með nýju lagi.Nýjasta lag Védísar Hervarar „Pretty Little Girls” er nú komið út en um þessar mundir eru 20 ár síðan fyrsta sólóplata hennar In the Caste leit dagsins ljós en þá var hún einungis 19 ára gömul. Védís, sem var tilnefnd bjartasta vonin það árið á Íslensku tónlistarverðlaununum, hlaut gullplötu, fjölda tilnefninga og verðlauna. Seinni sólóplata Védísar er A Beautiful Life – Recovery Project og skartaði útvarpssmellunum A Beautiful Life og Happy to be here. Sú plata færði henni dreifingarsamning hjá AWAL, sem er einn af stærstu dreifingaraðilum heims með stjörnur á borð við Daða Frey og Íslandsvininn Tinu Dico innanborðs. Védís braut tónlistarlega þögn til margra ára með laginu Grace árið 2016 og árið 2017 gaf hún út lagið Blow my mind en það hlaut tilnefningu sem popplag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Í kjölfarið fylgdu lögin Punch Drunk Love og Wild. Öll lögin hafa einnig komið út sem tónlistarmyndband og eru hluti af nýrri breiðskífu sem er væntanleg bráðlega.

„Mér finnst geggjað að líta yfir farinn veg - frá því að vera algjört unglamb með svaka samning hjá Skífunni að framleiða CD diska og svitna yfir markaðskostnaði og að ná núllpunkti - yfir í nútímann sem er allt annar heimur tónlistarveita og mun snarpari skilaboð til fylgjenda á samfélagsmiðlum.” Védís hlær: ,,Ég tala eins og ég sé níræð en á sama tíma er ég í algjörri aldursafneitun og finnst ég bara ennþá vera 16 ára og tilheyra ,,the young and cool kids”. En að því sögðu er ég miklu betri lagahöfundur í dag og finnst ég þroskaðri í öllu sem tengist þessu. Meiri ró í hjartanu og sátt.”

Fjölbreytnin göfgar andann

Áður en Védís hóf eigin sólóferil söng hún með Bang Gang á evrópskri útgáfu af plötunni You sem var gefin út árið 2000 í Evrópu og túraði samhliða í Frakklandi og síðar í Japan. Védís lærði svo upptökustjórn og hljóðblöndun í Lundúnum og tilheyrði í mörg ár lagahöfundateyminu BFD sem var svokölluð slagara maskína fyrir aðra tónlistarmenn þar í borg. Védís hefur einnig samið fyrir og með íslensku tónlistarfólki reglulega í gegnum tíðina. Þá var Védís ein af fyrstu Frostrósunum á Íslandi sem færðu landsmönnum jólatónleikavertíðina eins og við þekkjum hana í dag. Þar söng Védís vinsælar jólaábreiður á borð við Stjarnan mín og Hugurinn fer hærra í íslenskri þýðingu.

Védís er grjótharður jafnréttissinni og ein af stofnendum KÍTÓN, félags íslenskra kvenna í tónlist og fyrsti formaður þess. Á svipuðum nótum varð framleiðslufyrirtækið Freyja Filmwork til en Védís er ein eigenda þess ásamt Tinnu Hrafnsdóttur, Dögg Mósesdóttur og Þóreyju Mjallhvíti H. Ómarsdóttur. Freyja Filmwork raðar konum bak við myndavélarnar, sköpunarferlið og framleiðsluna í víðum skilningi, en Védís hefur t.a.m. samið tónlist fyrir auglýsingar, stuttmynd og kvikmynd.

Samhliða drjúgum tónlistarferli hefur Védís bætt á sig nokkrum háskólagráðum og unnið m.a. sem markaðsstjóri og framleiðandi og er í dag miðlunarstjóri hjá Samtökum atvinnulífsins.

„Flest tónlistarfólk heldur mörgum boltum á lofti til þess að láta dæmið ganga upp. Ég er hef verið þeirrar gæfu að aðnjótandi að hafa áhuga á breiðu sviði og viljað afla mér menntunar í takt við hugðarefnin. Það göfgar andann að hafa fjölbreytni í lífinu og hjálpar örugglega til við að fá ekki leið á bransanum - tónlistarsköpunin verður jafnvel aðeins heilagri fyrir vikið og hvíld frá skarkalanum, má segja” segir Védís.


Pretty Little Girls er fágaður poppsmellur úr smiðju Védísar með mikilvægum skilaboðum. Lagið er ádeila á útlitsdýrkun samtímans í umgjörð áhrifavalda og hvernig síbylja skilaboða um útlit og áferð gegnsýrir marga samfélagsmiðla.


,,Sálfræðilegu áhrifin eru óumdeilanleg. Svo hafa viðmið fegurðar alltaf verið svo furðulega breytileg. Allt frá kínversku fegurðar aðgerðinni að binda fæturna á konum á 11. öld þar til þær urðu örkumla yfir í að ,,kontóra” á sér andlitið á sér í dag svo það verði nánast óþekkjanlegt en nær viðurkenndum fegurðar viðmiðum. Allt er þetta að færa okkur fjær og fjær náttúrunni. Lagið varð til fyrir tæpum fjórum árum á töfrandi stund í hljóðverinu með öðlingnum Stefáni Erni Gunnlaugssyni og Þórhalli Bergmann. Það eiginlega dúndraðist út úr okkur og laglínan og textinn spruttu fram úr mér. Yndislega organískt ferli. Svo beið það bara í skúffunni þar til núna.”

Enginn sleppur sjálfráða án tónlistaruppeldis

Védís eignaðist nýlega sitt þriðja barn svo það er nóg um að snúast á heimilinu. Eru börnin að fá tónlistarlegt uppeldi?

„Tónlistin er yfir og allt um kring. Það sleppur enginn sjálfráða héðan án tónlistaruppeldis!” hlær Védís. ,,Ef það er eitthvað sem ég mun hafa gert rétt þá er það að að baða þau í tónlist og gefa þeim tækifæri og tól til að uppgötva neistann í sér sjálfum. Ég hef alltaf sagt að tónlistarmenntun af einhverju tagi sé gjöf, sama hvað við gerum við hana; laglaus eða taktlaus - hún hefur ákveðinn mátt sem getur breytt heiminum og nær til allra.”

Pretty Little Girls er hægt að finna á öllum helstu streymisveitum og einnig er hægt að fylgja Védísi á samfélagsmiðlum:

https://www.facebook.com/VedisHervor https://www.instagram.com/vedishervor/ Hlustaðu á nýja lagið hennar Pretty Litte Girls hér:


0 comments

Comments


bottom of page